Valdimar Birgisson
Valdimar Birgisson (um 1240 – 26. desember 1302) var konungur Svíþjóðar frá 1250 til 1275, þegar hann var settur af.
Valdimar var elsti sonur Birgis jarls Magnússonar og Ingibjargar Eiríksdóttur, sem var dóttir Eiríks Knútssonar konungs og systir Eiríks konungs smámælta og halta. Eiríkur dó barnlaus 1250 og var Valdimar systursonur hans, sem þá var um 10 ára gamall, valinn konungur í hans stað en faðirinn, Birgir jarl, varð ríkisstjóri. Hann hafði raunar verið valdamesti maður landsins síðustu árin sem Eiríkur lifði. Birgir stýrði Svíþjóð til æviloka og skpti þá litlu þótt Valdimar yrði myndugur. Þegar hann dó 1266 fékk Valdimar loks konungsvöld en mun hafa verið tilþrifalítill konungur og er raunar helst nafnkunnur fyrir ástarævintýri sín.
Valdimar giftist Soffíu, elstu dóttur Eiríks plógpenings Danakonungs, árið 1260 og áttu þau allmörg börn. Árið 1272 átti hann í ástarsambandi við yngri systur hennar, Juttu, og er sagt að þau hafi átt barn saman. Juttu var þá komið fyrir í klaustri en skriftafeður Valdimars fyrirskipuðu honum að fara í pílagrímsferð til Rómar í yfirbótarskyni. Það gerði hann árið 1274 en þegar hann sneri aftur lenti hann í deilum við bræður sína, fyrst Eirík hertoga af Smálöndum og síðar Magnús hlöðulás, en deilur þeirra áttu sér líklega mun eldri rætur. Bræðurnir gerðu uppreisn gegn Valdimar, sem neyddist til að flýja til Noregs ásamt Soffíu drottningu. Hann reyndi að snúa aftur en var þá tekinn til fanga og neyddur til að segja af sér. Magnús hlöðulás tók völdin og var kjörinn konungur. Valdimar var svo sleppt úr haldi og hann gerður að hertoga af Gautlandi 1277. Um svipað leyti sagði Soffía drottning skilið við mann sinn og sneri heim til Danmerkur.
Valdimar dvaldi sjálfur í Danmörku í níu ár en sneri síðan aftur heim og árið 1288 hneppti Magnús hann í varðhald í virkinu Nyköpingshus, að sögn vegna léttúðugs lífernis hans. Þar dvaldi hann þar til hann dó 1302 en mun þó hafa átt þægilega vist í fangelsinu og hafði meðal annars hjákonu sína þar með sér.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Valdemar Birgersson“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 3. september 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Valdemar of Sweden“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 3. september 2010.
Fyrirrennari: Eiríkur hinn smámælti og halti |
|
Eftirmaður: Magnús hlöðulás |