Fara í innihald

Valerianus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Valerianus
Rómverskur keisari
Valdatími 253 – 260
með Gallienusi (253–260)

Fæddur:

um 193 – 200

Dáinn:

260 eða síðar
Dánarstaður Persía
Forveri Aemelianus
Eftirmaður Gallienus (einn)
Maki/makar Egnatia Mariniana
Börn Gallienus,
Valerianus minor
Fæðingarnafn Publius Licinius Valerianus
Keisaranafn Imperator Caesar Publius Licinius Valerianus Augustus
Tímabil Herkeisararnir

Publius Licinius Valerianus (fæddur um 193 – 200, dáinn 260 eða síðar) var keisari Rómaveldis á árunum 253 – 260.

Valerianus kom úr virtri aðalsætt og gegndi fjölmörgum háttsettum embættum áður en hann varð keisari. Keisarinn Trebonianus Gallus skipaði hann yfirmann (dux) yfir nokkrum herdeildum í Gallíu sem líklega var ætlað að halda austur á bóginn til þess að mæta Sassanídum í Persíu. Gallus komst þó aldrei til Persíu því hann þurfti að mæta valdaræningjanum Aemilianusi sem endaði með því að Gallus var drepinn, á mið-Ítalíu, sumarið 253. Trebonianus Gallus hafði skipað Valerianusi að koma með herdeildir sínar í Gallíu til að aðstoða hann gegn Aemilianusi, en Valerianus var of seinn og Aemilianus var orðinn keisari þegar Valerianus kom til Ítalíu. Herdeildir Valerianusar hylltu hann þá sem keisara og hann hélt áfram áleiðis til Rómar. Þegar ljóst var að það stefndi í átök milli Valerianus og Aemilianusar hófu hermenn þess síðarnefnda að yfirgefa hann og ganga til liðs við Valerianus. Að lokum var Aemilianus drepinn og öldungaráðið samþykkti Valerianus sem keisara.

Fyrsta verk Valerianusar var að skipa son sinn, Gallienus, sem með-keisara sinn. Ástandið í heimsveldinu var með versta móti í stjórnartíð Valerianusar og Gallienusar og var 3. aldar kreppan svokallaða í hámarki á þessum tíma. Valerianus einbeitti sér að því að rétta hlut Rómverja gagnvart Sassanídum sem höfðu valdið miklum usla í skattlöndunum Armeniu og Syriu. Valerianusi varð nokkuð ágengt í sínum hernaðaraðgerðum og vann meðal annars borgina Antiokkíu aftur á vald Rómverja. Snemma árs 260 ætlaði hann að aflétta umsátri Sassanída um borgina Edessu. Orrustan um Edessu endaði með einum versta ósigri Rómverja fyrr og síðar. Valerianus sjálfur var tekinn höndum af Sassaníska konunginum, Shapur 1., og var að lokum drepinn. Þetta var mikið áfall fyrir Rómverja og þótti sérstaklega mikil niðurlæging þar sem Rómarkeisari hafði aldrei áður verið tekin til fanga af utanaðkomandi her. Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær eða hvernig Valerianus lést en flestar fornar heimildir segja að hann hafi sætt mjög slæmri meðferð af hálfu Sassanída. Gallienus hélt áfram sem keisari að föður sínum látnum og hélt völdum til ársins 268.


Fyrirrennari:
Aemilianus
Keisari Rómaveldis
(253 – 260)
Eftirmaður:
Gallienus