Didius Julianus
Didius Julianus | |
Rómverskur keisari | |
Valdatími | mars – júní 193 |
---|---|
Fæddur: |
30. janúar 133 |
Fæðingarstaður | Mediolanum (Mílanó) |
Dáinn: |
1. júní 193 |
Dánarstaður | Róm |
Forveri | Pertinax |
Eftirmaður | Septimius Severus |
Maki/makar | Manlia Scantilla |
Börn | Didia Clara |
Faðir | Quintus Petronius Didius Severus |
Móðir | Aemilia Clara |
Fæðingarnafn | Marcus Didius Severus Julianus |
Keisaranafn | Caesar Marcus Didius Severus Julianus Augustus |
Tímabil | Ár keisaranna fimm |
Marcus Didius Severus Julianus (30. janúar 133 – 1. júní 193) var keisari Rómaveldis, 28. mars – 1. júní, á ári keisaranna fimm, 193.
Pertinax, fyrirrennari Julianusar á keisarastóli, var myrtur í mars 193 af meðlimum úr lífvarðasveit sinni. Sagan segir að lífverðirnir hafi þá boðið upp keisaratitilinn og að Didius Julianus hafi boðið hæst. Lífverðirnir hylltu þá Julianus sem keisara en hann var þó ekki vinsæll á meðal almennings né á meðal öldungaráðsins. Þann 9. apríl 193 var Septimius Severus hylltur sem keisari af herdeildum í Pannoniu. Severus hélt þá strax til Rómar til að mæta Julianusi. Lífvarðasveit Julianusar var illa undir það búin að verja borgina, en auk þess höfðu lífverðirnir áttað sig á því að Julianus gat ekki staðið við loforð um launahækkanir til þeirra. Eftir því sem Severus og her hans nálgaðist borgina, fór Julianus því smám saman að missa stuðning lífvarðasveitarinnar. Severus átti einnig bandamenn inni í borginni og þeim tókst að fá öldungaráðið til þess að lýsa Severus keisara og Julianus sem óvin ríkisins. Julianus var dæmdur til dauða og tekinn af lífi eftir aðeins 66 daga valdatíð.