Niels Bohr
Niels Bohr (7. október 1885 – 18. nóvember 1962) var danskur eðlisfræðingur og nóbelsverðlaunahafi.
Hann fékk Nóbelsverðlaunin fyrir framlag sitt varðandi skilning á uppbyggingu atómsins og skammtafræði. Hann fékk verðlaunin 1922. Niels leiðbeindi og vann með fjölda af helstu eðlisfræðingum síðustu aldar við stofnun sína í Kaupmannahöfn. Hann vann síðar meir við hlið breskra eðlisfræðinga við Manhattan verkefnið. Bohr giftist Margrethe Nørlund árið 1912, og eitt barn þeirra, Aage Bohr, varð mikilsvirtur eðlisfræðingur sem fékk einnig Nóbelsverðlaunin árið 1975. Bohr hefur verið sagður einn mikilvægasti vísindamaður síðustu aldar.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Bohr fæddist í Kaupmannahöfn árið 1885. Faðir hans, Christian Bohr, var prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Fjölskylda móður hans hafði efnast af bankastarfsemi. Bróðir hans var Harald Bohr, stærðfræðingur og knattspyrnumaður. Hann fór á Ólympíuleika með danska landsliðinu. Niels hafði einnig áhuga á knattspyrnu og spiluðu þeir bræðurnir báðir fyrir liðið Akademisk Boldklub, þar sem Niels var markmaður.
Árið 1903 byrjaði Bohr í Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann nam upprunalega heimspeki ásamt stærðfræði. En hann varð því afhuga og sneri sér að námi í eðlisfræði. Hann fékk svo doktorsgráðu 1911.
Árið 1910 hitti Bohr Margrethe Nørlund, en hann giftist henni tveimur árum síðar. Þau eignuðust sex börn.
Árið 1922 fékk Bohr Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir rannsóknir sínar á sviði skammtafræða. En hann var frumherji á því sviði.
Árið 1943 frétti Bohr að þýska lögreglan ætlaði að handtaka hann. Danska andspyrnuhreyfingin náði þó að koma í veg fyrir þetta með því að smygla honum til Svíþjóðar. Skömmu seinna var hann fluttur til Bretlands. Þar var hann kynntur fyrir leyniáætlun sem fól í sér byggingu kjarnorkusprengju (Manhattan áætlunin). Hann var svo fluttur til Bandaríkjanna þar sem höfuðstarfsemi áætlunarinnar átti sér stað.
Bohr vann að Manhattan áætluninni í Bandaríkjunum þar sem hann var þekktur undir nafninu Nicholas Baker, af öryggisástæðum. Hlutverk hans var að vera einskonar ráðgjafi. Hann hafði áhyggjur af byggingu þess háttar (kjarnorku) vopna og tilvonandi vopnakapphlaups.
Bohr var þeirrar skoðunar að að deila ætti rannsóknarniðurstöðum áætlunarinnar með vísindasamfélaginu öllu og þar með rússum. En Winston Churchill var á móti því að deila hugmyndum og þekkingu á þessu sviði með öðrum, þá sérstaklega Rússum.
Eftir stríðið var Bohr fluttur til Kaupmannahafnar. Þar talaði hann fyrir friðsamlegri notkun kjarnorku.
Hann lést svo af völdum hjartaáfalls árið 1962
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Niels Bohr“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. mars 2012.