Fara í innihald

Obdulio Varela

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Obdulio Jacinto Muiños Varela (f. 20. september 1917 - d. 2. ágúst 1996) var knattspyrnumaður og frá Úrúgvæ. Hann er einn ástsælasti leikmaður í sögu sinnar þjóðar og var fyrirliðið landsliðsins sem fór með sigur af hólmi á HM 1950.

Ævi og ferill

[breyta | breyta frumkóða]
Obdulio Varela varð heimsmeistari með Úrúgvæ árið 1950.

Obdulio Varela fæddist í Montevideo árið 1917. Hann var af afrísku, grísku og spænsku bergi brotinn og gekk síðar undir viðurnefninu svarti foringinn (spænska: El Negro Jefe) vegna dökks litaraft síns. Hann var einn tíu bræðra úr blásnauðri fjölskyldu, enda fór hann að vinna fyrir sér aðeins átta ára gamall og var þrettán ára að aldri farinn að framfleyta sér með bílaviðgerðum og blaðasölu.

Hann lék með ýmsum smáliðum uns hann gekk til liðs við Montevideo Wanderers þar sem hann lék frá 1938-40. Þaðan lá leiðin til stórliðs Peñarol sem Varela lék með til loka ferils síns árið 1955. Á þeim tíma varð hann sex sinnum úrúgvæskur meistari: árin 1944, 1945, 1949, 1951, 1953 og 1954. Árið 1955 stýrði hann Peñarol um skamma hríð og var það hans eina þjálfarastarf á ferlinum.

Fyrirliði heimsmeistaranna

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti landsleikur Varela var á Copa America árið 1939 þar sem hann kom inná sem varamaður hjá úrúgvæska liðinu. Þremur árum síðar, árið 1942, var hann í sigurliði Úrúgvæ sem varð meistari á heimavelli. Hann var jafnframt þrívegis í sigurliðinu í Copa Río Branco, óreglulegri keppni Úrúgvæ og Brasilíu árin 1940, 1946 og 1948.

Stærsta stund Varela á knattspyrnuvellinum var þó vafalítið þegar hann leiddi landslið sitt sem fyrirliði til sigurs á HM 1950 í Brasilíu. Fyrirfram var heimaliðið talið langsigurstranglegast í keppninni og lið Úrúgvæ var talið vængbrotið og ekki einu sinni með sitt sterkasta byrjunarlið. Úrúgvæ komst auðveldlega upp úr forriðli með því að vinna stórsigur á Bólivíu. Við tók fjögurra liða úrslitariðill með heimaliðinu, Spánverjum og Svíum.

Þótt Verala væri varnarsinnaður miðjumaður skoraði hann jöfnunarmark Úrúgvæ gægn Spánverjum í fyrsta leik, sem segja má að hafi haldið liðinu inni í keppninni. Aftur máttu leikmenn Úrúgvæ hafa sig alla við til að vinna Svía í næsta leik, 3:2, eftir að hafa tvívegis lent undir í viðureigninni. Á sama tíma unnu Brasilíumenn stóra sigra gegn bæði Spánverjum og Svíum og dugði því jafntefli í úrslitaleik Suður-Ameríkuliðanna tveggja.

Juan López Fontana, þjálfari úrúgvæska liðsins, hélt ræðu yfir sínum mönnum fyrir úrslitaleikinn þar sem hann hvatti þá til að leggja höfuðáherslu á að verjast. Þegar hann hafði yfirgefið klefann tók Verala til máls og hvatti félaga sína til að hlusta ekki á fyrirmæli þjálfarans, því þá færi eins fyrir liðinu og Spánverjum og Svíum. Þess í stað skyldi Úrúgvæ blása til sóknar. Til að blása liðsfélögunum aukið kapp í kinn hafði hann komið með stóran bunka af dagblaði sem var með mynd af brasilíska liðinu á forsíðunni með yfirskriftina: „næstu heimsmeistarar!“ og hvatti þá til að míga yfir blöðin í sturtuklefanum.

Brasilíumenn náðu forystunni í byrjun seinni hálfleiks og virtust þar með komnir með pálmann í hendurnar. Áhorfendaskarinn á vellinum trylltist af kátínu. Verala komst að þeirri niðurstöðu að ef Úrúgvæ ætti að eiga nokkurn möguleika á að komast aftur inn í leikinn yrði hann að sljákka í áhorfendum. Hann greip því knöttinn, hélt á honum og varði drjúgum tíma í að rífast í dómara leiksins til að heimta rangstöðu sem alls ekki var raunin. Bragðið gekk fullkomlega upp. Stuðningsmönnum Brasilíu tók fljótt að leiðast þófið og í stað þess að fagna og hvetja sína menn tóku þeir að rífast og skammast. Síðar í hálfleiknum tókst Úrúgvæ að skora tvívegis og urðu heimsmeistarar öllum að óvörum. Jules Rimet forseti FIFA afhenti Verala verðlaunastyttuna nánast í kyrrþey og sleppti því að flytja ræðuna sem hann hafði undirbúið með hamingjuóskum til brasilíska liðsins.

Þvert á ráðleggingar forystumanna úrúgvæska knattspyrnusambandsins, fór Verala út á lífið um kvöldið til að fagna sigrinum og sat að sumbli með brasilískum stuðningsmönnum um nóttina.

Fjórum árum síðar var Varela aftur í landsliðshópi Úrúgvæ á HM 1954. Hann skoraði eitt marka liðs síns í sigri á Englandi í fjórðungsúrslitum en meiddist og gat ekki tekið þátt í undanúrslitaviðureigninni gegn Ungverjalandi.

Varela lést árið 1996.