Sen
Sen (eða zen) er form af búddisma, sem leggur megináherslu á hugleiðslu umfram dýrkun guðdóms, helgirita og regluverks. Í raun er það andstætt sen (zen) að það sé skilgreint, því hugmyndafræðin gengur út á að ekkert er í föstu formi. Allt er háð breytingum og það sem við höldum að sé veruleikinn er í raun okkar eigin túlkun samkvæmt hugmyndum zen. Sen varð til í Kína á 7. öld en breiddist þaðan til Víetnam, Kóreu og Japans. Japanski rithátturinn er zen en sá kínverski er chan (禪) en kínverska orðið er komið af orðinu dhyāna í sanskrít, sem merkir „hugleiðsla“.
Sen (zen) hugleiðsla, kölluð zazen gengur í stuttu máli út á að leyfa hugsunum að koma og fara og ekki dæma það sem kemur upp heldur einungis leyfa því að vera og taka eftir því. Þannig er ætlunin að hafa hugann í nútíð og draga úr egóisma með því að gera ekki tilkall til neinnar útkomu.