Whitney Houston
Whitney Houston (9. ágúst 1963 - 11. febrúar 2012) var bandarísk popp, R&B, Soul og Gospel söngkona, lagahöfundur, plötuframleiðandi, kvikmyndaframleiðandi og leikkona. Hún var meðal vinsælustu og farsælustu söngvara níunda og tíunda áratugarins og hefur hlotið ótal verðlaun fyrir tónlist sína.
Ævisaga
[breyta | breyta frumkóða]Fullu nafni hét hún Whitney Elizabeth Houston. Hún fæddist í Newark í New Jersey. Móðir hennar, Cissy Houston, frænka hennar, Dionne Warwick og guðmóðir hennar, Aretha Franklin[1], voru allar þekktar söngkonur og því ólst Whitney upp með tónlist stöðugt í kringum sig. Þegar hún var 11 ára hóf hún að syngja sem sólóisti í gospel-barnakór í New Hope Baptist kirkjunni í Newark.. Síðar hóf hún að fylgja móður sinni á tónleika og árið 1978 kom hún fram í laginu „Think It Over“ á plötu móður sinnar.[2] Eftir það kom hún fram á plötum annarra tónlistarmanna, svo sem Chaka Khan, Jermaine Jackson og Lou Rawls. Síðar árið 1978 söng hún sem aðalsöngvari í lagi hljómsveitarinnar Michael Zager Band, „Life's a Party“.
Snemma á níunda áratugnum varð hún fyrirsæta fyrir umboðskrifstofuna Whilhelmina og fór hún að birtast sem módel í ýmsum tímaritum.[2] Árið 1982 kom hún svo fram í laginu „Memories“ með jazz-funk hljómsveitinni Material.
Whitney skrifaði undir sinn fyrsta plötusamning árið 1983 eftir að Clive Davis, stjórnandi Arista hljómplötuútgefandans, heyrði hana syngja ásamt móður sinni á næturklúbbi. Árið 1984 náði hún vinsældum með laginu „Hold Me“, sem var dúett með Teddy Pendergrass. Lagið komst á bandaríska vinsældalista og vinsældir hennar hófu að vaxa hratt. Whitney kom fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttunum Gimme a Break og Silver Spoons.
Í febrúar 1985 kom fyrsta plata Whitney út. Platan var nefnd eftir söngkonunni, „Whitney Houston“. Lagið „You Give Good Love“ komst í þriðja sæti á vinsældalistum.[2] Lögin „Saving All My Love For You“, „How Will I Know“ og „Greatest Love Of All“ náðu fyrsta sæti á vinsældalistum. Í mars 1986 náði platan fyrsta sæti á plötuvinsældalistum og alls seldust um 24 milljónir eintaka af plötunni, sem varð mest selda plata söngkonu í sögunni. Whitney hlaut Grammy verðlaun fyrir lagið „Saving All My Love For You“ og Emmy verðlaun fyrir leik sinn í sjónvarpsþætti.
„Whitney“, önnur plata Whitney, kom út í júní 1987 og komst strax í efsta sæti vinsældalista í Bandaríkjunum og Bretlandi. Fjögur lög af plötunni („I Wanna Dance With Somebody“, „Didn't We Almost Have It All“, „So Emotional“ og „Where Do Broken Hearts Go“) komust í fyrsta sæti vinsældalista og þar með setti Whitney met í fjölda laga sem komust í fyrsta sæti vinsældalista í röð. Það met hefur ekki enn verið slegið.
Platan „Whitney“ seldist í um 19 milljónum eintaka og Whitney hlaut önnur Grammy verðlaun, nú fyrir besta söng kvenpoppsöngvara fyrir lagið „I Wanna Dance With Somebody“. Hún hlaut einnig nokkur verðlaun á American Music Awards verðlaunahátíðinni.
Þriðja plata Whitney kom út í nóvember 1990. Það var platan „I'm Your Baby Tonight“. Lögin „I'm Your Baby Tonight“ og „All The Man That I Need“ komust í efsta sæti vinsældalista og platan sjálf komst í þriðja sæti vinsældalista. Fleiri lög komust á topp 20 lista. Platan seldist í 13 milljónum eintaka.
Í júlí 1992 giftist Whitney R&B söngvaranum Bobby Brown. Samband þeirra hefur reynst stormasamt.
Sama ár lék Whitney í kvikmyndinni The Bodyguard ásamt Kevin Costner og tók upp sex lög sem komu fyrir í kvikmyndinni. Bæði kvikmyndin og kvikmyndartónlistin náðu töluverðum vinsældum og Whitney náði að stimpla sig inn sem bæði poppstjarna og kvikmyndastjarna.
Whitney hlaut fjölmörg verðlaun árið 1993, þar á meðal þrjú Grammy verðlaun. Sama ár eignaðist Whitney einkadóttur sína, sem hlaut nafnið Bobbi Kristina Brown.
Árið 1994 vann Whitney átta verðlaun á American Music Awards verðlaunahátíðinni. Sama ár varð hún fyrsti bandaríski tónlistarmaðurinn til að halda tónleika í Suður-Afríku eftir lok aðskilnaðarstefnunnar. Tónleikarnir voru haldnir til að safna fyrir barnahjálp í Suður-Afríku.
Árið 1995 kom út platan „Waiting To Exhale“, sem inniheldur kvikmyndartónlist fyrir samnefnda kvikmynd. Á plötunni eru þrjú lög Whitney, þar á meðal „Exhale (Shoop Shoop)“, sem náði miklum vinsældum.
Árið 1997 lék Whitney ásamt Denzel Washington í kvikmyndinni The Preacher's Wife. Sú kvikmynd fékk sæmilegar móttökur en varð þó ekki nærri því eins vinsæl og fyrri myndirnar. Tónlist kvikmyndarinnar var að mestu leyti frá Whitney, sem söng fjórtán ný gospel lög á plötu kvikmyndarinnar. Platan seldist illa miðað við aðrar plötur Whitney, en varð þó best selda gospel plata í manna minnum.
Sama ár lék Whitney í nýrri útgáfu af ævintýrinu Cinderella, sem kom út sem sjónvarpsmynd. Auk þess var hún framleiðandi myndarinnar. Myndin vann Emmy verðlaun og er best selda sjónvarpsmynd allra tíma.
Whitney hafði nú eytt bróðurpartinum af tíunda áratugnum sem leikkona, en árið 1998 sneri hún sér aftur að tónlistinni og gaf út plötuna My Love Is Your Love. Platan átti upphaflega að vera safn af bestu lögum Whitney ásamt nokkrum nýjum lögum, en svo mikið af nýjum lögum voru tekin upp að ákveðið var að allt efni plötunnar yrði nýtt og safnplata gefin út sér.
Lagið „When You Believe“, sem Whitney söng ásamt Mariah Carey og notað var í kvikmyndinni The Prince Of Egypt, náði töluverðum vinsældum og lögin „Heartbreak Hotel“ (sem Faith Evans og Kelly Price sungu einnig í, „It's Not Right, But It's Okay“ og „My Love Is Your Love“ urðu enn vinsælli og komust í fimmta sæti vinsældalista. Platan seldist í yfir 10 milljónum eintaka og Whitney hlaut enn á ný fjölmörg verðlaun.
Safnplatan Whitney: The Greatest Hits kom svo út í apríl 2000 og seldist vel. Samnefndur DVD diskur var gefinn út um leið. Hann inniheldur tónlistarmyndbönd Whitney frá árunum 1985-1999, upptökur af tónleikum og viðtöl frá sama tímabili.
Um svipað leyti fannst maríjúana í fórum Whitney og Bobby Brown við eftirlit á flugvellinum á Hawaii. Þau flugu af vettvangi áður en lögreglan komst á staðinn, en síðar voru ákærur á hendur þeim felldar úr gildi. Augu fólks bárust þó í meiri mæli að meintri fíkniefnamisnotkun hjónanna og stormasömu hjónabandi þeirra.
Í ágúst 2001 endurnýjaði Whitney plötusamning sinn hjá Arista Records. Talið er að samningurinn sé fyrir 5 nýjar plötur.
Skömmu síðar gaf Whitney aftur út lagið „The Star Spangled Banner“, sem var upphaflega spilað á Super Bowl tíu árum áður. Smáskífan seldist gríðarlega vel. Allur hagnaður af útgáfunni rann til góðgerðamála í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001.
Sama ár var Whitney falin framleiðsla á Disney-myndinni The Princess Diaries.
Árið 2002 kom út platan Just Whitney.... Platan seldist vel en vakti þó ekki mjög mikla athygli.
Whitney tók að sér framleiðslu á tveimur öðrum Disney-myndum, The Cheetah Girls og The Princess Diaries 2: Royal Engagement.
Árið 2003 gaf Whitney svo út jólaplötuna One Wish: The Holiday Album, sem inniheldur mörg klassísk jólalög. Platan seldist ekkert sérstaklega vel ef mið er tekið af fyrri plötum Whitney, en þó nokkuð vel miðað við aðrar jólaplötur.
Í mars 2004 fór Whitney í stutta fíkniefnameðferð, en eyddi svo tveimur mánuðum í meðferð ári síðar.
Árið 2005 tók Whitney, ásamt eiginmanni sínum, þátt í sjónvarpsþáttunum Being Bobby Brown, sem sýnd er á Bravo sjónvarpsstöðinni og fjallar um daglegt líf á heimili þeirra hjónanna.
Hún lést 11. febrúar 2012 í Beverly Hills í Kaliforníu.[3]
Hljómplötur
[breyta | breyta frumkóða]- 1985: Whitney Houston
- 1987: Whitney
- 1990: I'm Your Baby Tonight
- 1992: The Bodyguard
- 1995: Waiting To Exhale
- 1996: The Preacher's Wife
- 1998: My Love Is Your Love
- 2000: The Greatest Hits
- 2001: Love, Whitney
- 2002: Just Whitney...
- 2003: One Wish: The Holiday Album
- 2009: I Look To You
Smáskífur
[breyta | breyta frumkóða]- 1984: "Hold Me" (ásamt Teddy Pendergrass
- 1985: "Someone For Me"
- 1985: "You Give Good Love"
- 1985: "Saving All My Love For You"
- 1986: "How Will I Know"
- 1986: "The Greatest Love Of all"
- 1986: "Thinking About You"
- 1987: "I Wanna Dance With Somebody (Who Loves Me)"
- 1987: "Didn't We Almost Have It All"
- 1987: "So Emotional"
- 1988: "Where Do Broken Hearts Go"
- 1988: "Love Will Save The Day"
- 1988: "One Moment In Time"
- 1989: "Taking A Chance"
- 1989: "It Isn't, It Wasn't, It Ain't Never Gonna Be" ásamt Aretha Franklin
- 1990: "I'm Your Baby Tonight"
- 1990: "All The Man That I Need"
- 1991: "The Star-Sprangled Banner"
- 1991: "Miracle"
- 1991: "My Name Is Not Susan"
- 1991: "I Belong To You"
- 1991: "We Didn't Know" ásamt Stevie Wonder
- 1992: "I Will Always Love You"
- 1993: "I'm Every Woman"
- 1993: "I Have Nothing"
- 1993: "Run To You"
- 1993: "Queen Of The Night"
- 1993: "Something In Common" ásamt Bobby Brown
- 1995: "Exhale"
- 1996: "Why Does It Hurt So Bad"
- 1996: "Count On Me" ásamt CeCe Winans
- 1996: "I Believe In You And Me"
- 1996: "Step By Step"
- 1997: "My Heart Is Calling"
- 1998: "When You Believe" ásamt Mariah Carey
- 1998: "Heartbreak Hotel" ásamt Faith Evans og Kelly Price
- 1998: "It's Not Right, But It's Okay"
- 1999: "My Love Is Your Love"
- 1999: "I Learned From The Best"
- 2000: "If I Told You That" ásamt George Michael
- 2000: "Could I Have This Kiss Forever" ásamt Enrique Iglesias
- 2000: "Same Script, Different Cast" ásamt Deborah Cox
- 2000: "Fine"
- 2002: "Whatchulookinat"
- 2002: "One Of Those Days"
- 2003: "Try It On My Own"
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Biography for Whitney Houston IMDB.com
- ↑ 2,0 2,1 2,2 "Whitney Houston Sings Her Way to Stardom with Hit Album, Road Tour". Jet (Johnson Publishing Company) 68 (24): 59. 26. ágúst, 1985. ISSN 0021-5996. Skoðað 12 Febrúar 2012
- ↑ UPDATE 4-Award-winning singer Whitney Houston dies at age 48 Geymt 12 febrúar 2012 í Wayback Machine Reuters