Fara í innihald

Willi Stoph

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Willi Stoph
Forsætisráðherra Austur-Þýskalands
Í embætti
21. september 1964 – 3. október 1973
ForsetiWalter Ulbricht
Friedrich Ebert yngri (starfandi)
ForveriOtto Grotewohl
EftirmaðurHorst Sindermann
Í embætti
29. október 1976 – 13. nóvember 1989
ForsetiErich Honecker
Egon Krenz
ForveriHorst Sindermann
EftirmaðurHans Modrow
Formaður ríkisráðs Austur-Þýskalands
Í embætti
3. október 1973 – 29. október 1976
ForsætisráðherraHorst Sindermann
ForveriFriedrich Ebert yngri (starfandi)
EftirmaðurErich Honecker
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. júlí 1914
Berlín, Prússlandi, þýska keisaraveldinu
Látinn13. apríl 1999 (84 ára) Berlín, Þýskalandi
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Þýskalands (1928–1946)
Sósíalíski einingarflokkurinn (1946–1990)
StarfVerkfræðingur

Wilhelm Stoph (9. júlí 1914 – 13. apríl 1999) var austur-þýskur stjórnmálamaður. Hann var formaður ráðherraráðs (forsætisráðherra) þýska alþýðulýðveldisins frá 1964 til 1973 og aftur frá 1976 til 1989. Hann var jafnframt formaður ríkisráðsins (þjóðhöfðingi) frá 1973 til 1976.

Stoph fæddist í Berlín árið 1914.[1] Faðir hans lést næsta ár í fyrri heimsstyrjöldinni. Árið 1928 gekk Stoph í ungliðahreyfingu þýskra kommúnista (Kommunistischer Jugendverband Deutschlands; KJVD) og árið 1931 gekk hann í Kommúnistaflokk Þýskalands. Hann gegndi jafnframt þjónustu í þýska hernum frá 1935 til 1937 og aftur í seinni heimsstyrjöldinni frá 1940 til 1945. Hann var sæmdur járnkrossinum af annarri gráðu og náði tign liðþjálfa (Unteroffizier). Eftir lok stríðsins vann Stoph með nýja Sósíalíska einingarflokknum og sat í framkvæmdanefnd flokksins frá árinu 1947.[2]

Eftir stofnun þýska alþýðulýðveldisins árið 1949 fékk Stoph sæti í miðnefnd Sósíalíska einingarflokksins og gekk hann á austur-þýska þjóðþingið árið 1950. Hann hlaut sæti í stjórnmálanefnd Sósíalíska einingarflokksins árið 1953. Hann var innanríkisráðherra frá 1953 til 1955 og varð fyrsti varnarmálaráðherra Austur-Þýskalands frá 1956 til 1960.[3][4] Sem varnarnmálaráðherra hlaut hann titilinn Armeegeneral, æðstu hershöfðingjatign austur-þýska hersins.

Eftir að hafa gegnt embætti varaforsætisráðherra frá 1960 til 1964 var Stoph útnefndur forsætisráðherra eftir dauða Otto Grotewohl árið 1964. Hann hafði í reynd gegnt embættinu til bráðabirgða frá október 1960 vegna vanheilsu Grotewohl. Í fyrstu var litið á Stoph sem sennilegan arftaka flokksleiðtogans Walters Ulbricht en að endingu var það Erich Honecker sem tók við forystu flokksins.[4][5] Eftir dauða Ulbrichts árið 1973 tók Stoph við sem formaður ríkisráðsins, þjóðhöfðingjaembætti sem samsvaraði embætti forseta alþýðulýðveldisins. Eftir kosningar á þjóðþingið árið 1976 endurskipulagði Honecker flokkinn og ríkisstjórnina. Honecker taldi eftirmann Stophs sem forsætisráðherra, Horst Sindermann, of frjálslyndan í efnahagsmálum og útnefndi Stoph því forsætisráðherra á ný.

Á fyrstu embættistíð sinni sem forsætisráðherra hóf Stoph viðræður við vestur-þýska kanslarann Willy Brandt árið 1970. Viðræður þeirra leiddu til fyrsta fundar milli leiðtoga Austur- og Vestur-Þýskalands.

Stoph naut trausts flokksforystunnar til að framkvæma vilja stjórnmálanefndarinnar. Þess vegna hafði Honecker valið hann í annað skipti til að gegna embætti forsætisráðherra.[4] Stoph var að mestu tryggur stuðningsmaður Honeckers. Þótt Stoph væri að nafninu til æðsti maður Austur-Þýskalands var Honecker í reynd valdameiri sem aðalritari Sósíalíska einingarflokksins. Stoph tók engu að síður þátt í samsærinu til að bola Honecker frá völdum í október 1989, þegar kommúnistastjórnin riðaði á barmi hruns. Á fundi stjórnmálanefndarinnar lagði Stoph fram frumvarp að vantrauststillögu gegn Honecker og sá til þess að Egon Krenz yrði nýr aðalritari.[6] Mánuði síðar sagði Stoph af sér ásamt öllum 44 meðlimum ríkisstjórnarinnar vegna þrýstings frá almenningi. Stoph var síðan handtekinn fyrir spillingu í desember 1989. Til þess að bjarga andlitinu ákvað Lýðræðislegi sósíalistaflokkurinn, arftaki Sósíalíska einingarflokksins, að svipta Stoph flokksaðild í janúar 1990. Hann var síðar undanþeginn fangavist af heilsufarsástæðum. Árið 1994 ákvað dómstóll í Berlín að Stoph myndi ekki fá endurgreidd 200.000 þýsk mörk sem höfðu verið gerð upptæk frá honum.

Stoph lést í Berlín þann 13. apríl árið 1999 og var þá síðasti eftirlifandi foringi Austur-Þýskalands að Egon Krenz undanskildum.[4] Hann var grafinn í Wildau.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Obituary: Willi Stoph“. The Independent. 21. apríl 1999. Afrit af upprunalegu geymt þann apríl 4, 2019. Sótt janúar 25, 2021.
  2. Harris M. Lentz (2014). Heads of States and Governments Since 1945. Routledge. bls. 305. ISBN 9781134264902.
  3. „East German ministries“. Rulers. Sótt 28. apríl 2013.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 Saxon, Wolfang (22. apríl 1999). „Willi Stoph, 84, Premier, Twice, in East Germany“. The New York Times. Sótt 28. apríl 2013.
  5. Dierk Hoffmann (2009). Otto Grotewohl 1894-1964 : Eine politische Biographie. Veröffentlichungen zur SBZ-/DDR-Forschung im Institut für Zeitgeschicht. bls. 466-468.
  6. Sebetsyen, Victor (2009). Revolution 1989: The Fall of the Soviet Empire. New York City: Pantheon Books. ISBN 978-0-375-42532-5.


Fyrirrennari:
Otto Grotewohl
Forsætisráðherra Austur-Þýskalands
(21. september 19643. október 1973)
Eftirmaður:
Horst Sindermann
Fyrirrennari:
Walter Ulbricht
Formaður ríkisráðs Austur-Þýskalands
(3. október 197329. október 1976)
Eftirmaður:
Erich Honecker
Fyrirrennari:
Horst Sindermann
Forsætisráðherra Austur-Þýskalands
(29. október 197613. nóvember 1989)
Eftirmaður:
Hans Modrow