Svifryk
Það þarf að skrifa þessa grein út frá alþjóðlegu sjónarmiði. Vinsamlegast bættu greinina eða ræddu málið á spjallsíðunni. |
Svifryk eru agnir í andrúmsloftinu, bæði í vökvaformi og föstu formi, sem eru smærri en 10 míkrómetrar í þvermál. Svifryki er oftast skipt eftir kornastærð í PM10 og PM2,5 agnir. PM er stytting á enska heitinu „particulate matter“ en talan táknar mestu mögulegu stærð í míkrómetrum (μm). Undanfarið hefur athyglin beinst í auknum mæli að örfínum ögnum (PM1 og PM0,1) sem smjúga inn um frumuhimnur og hafa áhrif á æðaveggi og heilavef.
Myndun svifryks
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi er svifryk aðallega afurð bæjarumferðar[heimild vantar]. Litlu agnirnar geta verið ýmis efnasambönd en hinar stærri eru að mestu uppspænt malbik. Dieselknúnar (5 x PM2,5) bifreiðar á nagladekkjum (100 x PM10) framleiða mest svifryk. Dreifing svifryks fer eftir veðri, vindum, umferðarþunga og umferðarhraða. Að öllu jöfnu setjast stærstu agnirnar eftir um klst. en minni agnir svífa mun lengur og berast þar af leiðandi lengri leið. Þær smæstu geta endað nánast hvar sem er á jörðinni.
Samsetning svifryks
[breyta | breyta frumkóða]Gróft svifryk er að mestu tjara, gúmmí og önnur hörð efni, ekki síst fínn grjótmulningur úr malbiki. Fínt svifryk er að mestu efnasambönd sem verða til við bruna eldsneytis. Þau efni sem eru sérstaklega vöktuð á Íslandi eru:
- Svifryk (PM10) - má að jafnaði fara yfir 50 μg/m3 sjö daga á ári með ársmeðaltal 20 μg/m3.
- Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) - má að jafnaði fara yfir 75 μg/m3 sjö daga á ári með ársmeðaltal 30 μg/m3.
- Brennisteinsvetni (H2S) - hefur heilsuverndarmörk mörk 50 μg/m3 fyrir 24 klst hlaupandi meðaltal.
Önnur efni sem fylgst er með eru meðal annars:
- Svifryk (PM2,5)
- Kolmónoxíð (CO)
- Brennisteinsdíoxíð (SO2)
- Bensen
- Óson (O3)
Skaðsemi svifryks
[breyta | breyta frumkóða]Fínt svifryk getur borist í blóðstraum fólks og annarra lífvera gegnum lungun en stærri agnirnar setjast að í lungunum. Talið er að agnirnar geti valdið heilsubresti og vitað er að þær magna þau veikindi sem fyrir eru.[1]
Meðal kvilla sem svifryk hefur áhrif á er astmi, ofnæmi, hjartsláttaróregla og lungnateppa. Börn (sem eru að taka út lungnaþroska) eru sérstaklega næm fyrir svifryksmengun. Lífsgæðaskerðing barna, aldraðra og sjúklinga er veruleg.[2]
Ef hlutfall þeirra sem deyja fyrir aldur fram af völdum svifryks á Norðurlöndunum (sbr. neðangreindar heimildir) er yfirfært á Ísland, þá gætu á annað hundrað Íslendingar dáið fyrir aldur fram árlega af völdum svifryks. Brýnt er að rannsaka hvort að svo geti verið.[3]
Svifryksmengun
[breyta | breyta frumkóða]Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur áherslu á að ekki séu nein sérstök mörk þar sem svifryksmengun er „góð“ en fari hún yfir ákveðin mörk þá sé hún enn verri.
Umhverfisstofnun Íslands annast mælingar svifryks í Reykjavík. Fastar mælistöðvar eru við Grensásveg og í Húsdýragarði. Gert ráð fyrir að magn PM10 agna megi ekki fara yfir hættumörk sín hvern sólarhring og árlega. Dagshámarkið er 50 míkrógrömm (μg) að jafnaði en með árshámark að jafnaði 20 μg. Svigrúm til að fara yfir dagshámark sjö sinnum árlega er þegar fullnýtt fyrir árið 2010, og gott betur. Ársmagn milli maí-mánaða 2009 og 2010 er yfir mörkum.
Viðbrögð við svifryksmengun
[breyta | breyta frumkóða]Aukinn skilningur á skaðsemi svifryks hefur orðið til þess að grasrótarsamtök, bæjarfélög, ríkisstofnanir og alþjóðleg samtök hafa tekið höndum saman gegn þessarri vá. Á Íslandi hafa ákveðnir einstaklingar og íbúasamtök unnið grasrótarstarf, en Reykjavíkurborg, Veðurstofa Íslands og Umhverfisstofnun hafa vakið athygli á þessum mikla vanda sem opinberir aðilar. Fyrir utan mælingar og upplýsingagjöf til almennings hafa kraftarnir beinst að eftirfarandi atriðum:
- Nagladekk - Norska vegagerðin bendir á að hvert nagladekk framleiðir 100 sinnum meira svifryk en óneglt dekk og norska Loftrannsóknarstofnunin telur að 98% af því grófa svifryki sem verður til í umferðinni sé af völdum nagladekkjanotkunar. Í Þýskalandi, Japan og víðar hafa nagladekk verið alfarið bönnuð, án þess að það hafi aukið tíðni árekstra.
Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á auglýsingaherferð gegn nagladekkjum, en hefur einnig lagt til að nagladekkjagjald verði tekið upp hér á landi. Það mál er í farvegi, en gæti átt langt í land þó svo að umræðan hafi staðið lengi. Drög að lagabreytingu munu heimila sveitarfélagi að leggja á nagladekkjagjald að höfðu samráði við Vegagerðina. Þá er eftir að fara í viðræður sveitarfélaga um samræmingu gjalda sem gæti orðið tímafrek. Reykjavíkurborg vill einnig þrengja nagladekkjatímabilið. Sekt við að keyra á nagladekkjum eftir 15. apríl er 5.000 kr. á dekk.
- Skolun og rykbinding gatna hefur borið einhvern árangur, en þarf að auka
- Vegtollar, lækkun á hámarkshraða og lokanir gatna geta hliðrað og minnkað umferð og þar með svifryksmengun. Þungaumferð um Reykjavík hefur stóraukist með afnámi strandsiglinga. Talsverð bót væri fólgin í endurkomu þeirra[heimild vantar]. Þá hefur Miklabraut sem sker Reykjavík verið gerð að hraðbraut sem er þvert á þessa stefnu.
- Fækkun díselknúinna bifreiða. Norsku astmasamtökin benda á að hver díselknúin bifreið framleiðir margfalt meira fínkorna svifryk en bensínknúin bifreið. Það er útbreiddur misskilningur að þeir séu orðnir umhverfisvænari[heimild vantar]. Hið rétta er að þó að CO2 mengun þeirra hafi minnkað þá er NO2 mengun þeirra um fimmföld á við NO2 mengun bensínknúinna bifreiða.
Ekkert hefur verið gert til að fækka díselknúnum bifreiðum í bæjarumferð Reykjavíkur. Þeim hefur fjölgað umfram bensínknúnar bifreiðar undanfarin ár, sérstaklega frá 2005 vegna stjórnvaldaðgerða sem miða að fjölgun þeirra. Umhverfisráðuneytið, Orkustofnun Íslands og fleiri aðilar hafa hvatt til notkunar þeirra vegna lægri eyðslu og minna framlags til gróðurhúsaáhrifa. Í samræmi við það gerir fjölskipuð nefnd Vettvangs um vistvænt eldsneyti ráð fyrir því að gjöld á bifreiðar miðist við CO2 framleiðslu þeirra, án tillits til framleiðslu NO2 eða svifryks. Sérfræðinefnd Umhverfisráðuneytisins 2009 gerði tillögu um kerfisbundna útrýmingu bensínknúinna bifreiða.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Svifryksmengun í Reykjavík-Mastersritgerð“ (PDF). Verkfræðideild Háskóla Íslands. Sótt 23. febrúar 2013.[óvirkur tengill]
- ↑ „Svifryksmengun í Reykjavík-Mastersritgerð“ (PDF). Verkfræðideild Háskóla Íslands. Sótt 23. febrúar 2013.[óvirkur tengill]
- ↑ „Svifryksmengun í Reykjavík-Mastersritgerð“ (PDF). Verkfræðideild Háskóla Íslands. Sótt 23. febrúar 2013.[óvirkur tengill]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Viðmið alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um loftgæði frá 2005
- WHO um skaðsemi svifryks: Health Aspects of Air Pollution (2003) Geymt 6 maí 2003 í Wayback Machine
- Regluverk Evrópusambandsins um loftmengurnarvarnir, mælingar og upplýsingarskyldu 1996 á íslensku Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine
- Regluverk Evrópusambandsins um loftmengurnarvarnir, mælingar og upplýsingarskyldu 2008 á ensku Geymt 19 júní 2010 í Wayback Machine
- Reglugerð 251/2002 um heilsuspillandi efni í andrúmslofti og upplýsingar til almennings
- Loftgæðaeftirlit Bandaríkjanna er með ítarlegar upplýsingar um svifryksmengun
- Græn vísindi um svifryk
- American Lung Association Geymt 6 maí 2010 í Wayback Machine fjallar um svifryksmengun og lungnasjúkdóma
- Luftforurensing fra vegtrafikken[óvirkur tengill] er mjög ítarlegur og myndrænn bæklingur frá norsku vegagerðinni
- Renare luft i våra lungor[óvirkur tengill] er bæklingur Norðurlandaráðs með góðum greinum frá Norðurlöndum
- Norsku Astma og ofnæmissamtökin Geymt 4 maí 2010 í Wayback Machine benda á þá auknu megnun sem fylgir dieselknúnum bifreiðum
- Luftkvalitet.info Geymt 15 mars 2010 í Wayback Machine er norsk síða í háum gæðaflokki um loftgæði Norðmanna
- Danskar umhverfisrannsóknir (DMU) með ítarlegar upplýsingar um tjöru
- Norska loftrannsóknarstofnunin Geymt 26 maí 2010 í Wayback Machine
- 'Dirty Little Secrets', er ástralskur heimildarþáttur frá 2006 um áhrif örfínna einda úr útblæstri bifreiða á heilsu
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Íbúasamtök þriðja hverfis Geymt 21 ágúst 2009 í Wayback Machine hafa barist gegn svifryksmengun frá 2005
- Umhverfisstofnun fylgist með loftgæðum Reykjavíkurborgar
- Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar sinnir vöktun á loftgæðum og fylgir eftir loftgæðastefnu með viðbragðsáætlun
- Loftgæðamælingar Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar frá 2003 til 2008
- Loftgæðamælingar Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar Geymt 14 febrúar 2010 í Wayback Machine frá 2009
- Loftgæðamælingar Umhverfisstofnunar Geymt 1 júní 2010 í Wayback Machine frá 2006
- Janúarhefti SÍBS blaðsins 2010 fjallar um loftgæði
- Fyrra tölublað tímarits Astma og ofnæmisfélagsins 2008 fjallar um loftgæði
- Vistakstur í boði Ökukennarafélagsins og Umferðarstofu
- Stefna Íslendinga í eldsneytismálum einkabifreiða[óvirkur tengill] Tillögur um aðgerðir stjórnvalda frá stýrihópi Vettvangs um vistvænt eldsneyti 2006
- Stefnumörkun Umhverfisráðuneytisins í loftslagsmálum 2007
- Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi Niðurstöður sérfræðinganefndar Umhverfisráðuneytisins 2009